Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
úthlutun styrkja
Úthlutun úr samfélagssjóðum Virðingar 2016

Þann 20. júní 2016 var styrkjum úr samfélagssjóðum Virðingar úthlutað í áttunda sinn. Samfélagssjóðir Virðingar eru tveir, AlheimsAuður og Dagsverk Virðingar.

AlheimsAuði er ætlað að hvetja konur til athafna og frumkvæðis, einkum í þróunarlöndum. Þrjú verkefni hlutu styrki AlheimsAuðar að þessu sinni.

Félagasamtökin Women Power, hlutu styrk til að halda 3. námskeiðið, Máttur kvenna í Tansaníu. Markmið námskeiðsins er að aðstoða konur við að finna viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu, vinna einfalda viðskiptaáætlun og hefja atvinnurekstur. Einnig fá samtökin fjárhagsstyrk sem er stofnframlag í lánasjóð sem konur í Tansaníu geta fengið lánað úr á hagstæðum kjörum til að hefja atvinnurekstur.

Hrói Höttur, Barnavinafélag, hlaut styrk til að veita íslenskum grunnskólabörnum sem líða skort, stuðning og aðstoð. Markmiðið félagsins er að stuðla að því að grunnþarfir og nauðsynjar séu uppfylltar í grunnskólum.

Samtök um Kvennaathvarf, hlaut styrk til þess að ýta úr vör millistigshúsnæði fyrir konur sem eru að koma úr dvöl úr athvarfinu og sinna sem best þjónustu við þær þangað til þær eru tilbúnar til að fara út á almennan húsnæðismarkað og standa á eigin fótum.

Dagsverk Virðingar er samfélagsverkefni starfsmanna Virðingar hf. Það felst í því að starfsmenn gefa andvirði launa sinna í einn dag á ári í verðugt innlent málefni. Ennfremur vinna allir starfsmenn sem nemur einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis.

Styrkir Dagsverksins skiptust í þetta sinn í þrjá hluta, annars vegar peningastyrki og hins vegar vinnuframlag.

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, hlaut peningastyrk til að geta boðið börnum í félaginu betri listmeðferð við betri aðstæður.

Suðri, íþróttafélag fatlaðra á Suðurlandi,hlaut peningastyrkur til kaupa á Boccia tækjum.

Vinnuframlagið fer til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, með þátttöku starfsmanna Virðingar hf. í hjólaviðgerðum.

Það er von okkar að styrkirnir nýtist styrkþegum vel í starfi þeirra.