Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
asgeir_virding-1.width-900
Nýtt Ísland?

Dr. Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi Virðingar, fer yfir stöðuna eftir óvænta lækkun Seðlabanka Íslands á vöxtum:

Óvænt lækkun

Seðlabankinn lækkaði vexti um 50 punkta með nokkuð óvæntum hætti nú í morgun. Lækkunin var óvænt vegna þess að engar sérstakar breytingar hafa átt sér stað á efnahagshorfum, verðbólguþróun né fjármálmörkuðum síðustu 6-9 mánuði. Ef eitthvað er hefur þenslan vaxið eftir því sem á árið hefur liðið og í Peningamálum sem kom út í dag hækkaði Seðlabankinn helstu spár um einkaneyslu, fjárfestingu, útflutning og hagvöxt. Þess er líka skemmst að minnast að Seðlabankinn hækkaði vexti um 25 punkta í nóvember á síðasta ári vegna þessara þenslumerkja. Staðan er hins vegar sú að verðbólga hefur hjaðnað á þessu ári í trássi við verðbólguspá bankans og er nú um 1,1% á ársgrundvelli en -0,6% ef litið er framhjá húsnæði. Þannig hafa raunstýrivextir hækkað og voru 4,6% fyrir lækkunina og 6,3% ef litið er til verðbólgu án húsnæðis. Það eru einfaldlega gríðarlega háir raunvextir – alltof háir!

Vaxtalækkun Seðlabankans virðist marka ákveðna stefnubreytingu, eða kannski viðurkenningu á því að verðbólga sé ekki að fara að láta á sér kræla þrátt fyrir aukna þenslu í efnahagslífinu. Og Seðlabankinn hafði einfaldlega ofspáð verðbólgu með því að taka ekki með í reikninginn styrkingu krónunnar og lækkun olíuverðs. Þá virðist einnig sem hin gamalkunnu tengsl launa og verðlags hafi að einhverju leyti breyst – eða tafist – þannig að íslensk fyrirtæki hafi ekki velt gríðarlega mikilli aukningu í launakostnaði með því að hækka verðlag.

Verður næsta ár líka verðbólgulaust?

Á kynningarfundi á Peningamálum lýsti Seðlabankastjóri því sem svo að tveir kraftar toguðust á: Erlend verðhjöðnun sem er varpað inn í hagkerfið með gengishækkun og innlendur verðbólguþrýstingur. Nú um stundir hafi hinn fyrri kraftur yfirhöndina en þegar kemur fram á hið næsta muni hin gamalkunna íslenska saga endurtaka sig og miklar launahækkanir koma fram í verðlagi. Það má vera að þessi saga sé rétt – og verðbólgan muni koma. Hins vegar er alls óvíst að þessi tímasetning haldi fremur en þær fyrri sem Seðlabankinn hefur gefið út um hvenær verðbólguskellurinn kemur. Hér verður einnig að hafa í huga að verðbólguspár Seðlabankans eru alltaf miðaðar við fastgengi og þar sem allt bendir til þess að krónan haldi áfram að styrkjast er ljóst að nýjasta spá Seðlabankans ofmetur verðbólgu á næstu fjórðungum líkt og hinar fyrri.

Sú ákvörðun að lækka vexti um 50 punkta gæti bent til þess að peningastefnunefndin áliti að núverandi lágverðbólga geti haldið áfram – enda virðist verðhjöðnun ætla að halda áfram á heimsvísu og ekkert bendir til annars en krónan haldi áfram að styrkjast. Þá er einnig hægt að minna á Seðlabankinn hefur komið sér upp nýjum tækjum til þess að hafa áhrif á innlenda hagþróun sem hann mun líklega beita fremur en stýrivaxtahækkunum – þar ber helst að nefna bindiskyldu sem leggst bæði á íslenska banka sem erlenda fjárfesta sem vilja koma inn í landið.

Áframhaldandi vaxtalækkanir?
Mikilvægt er að hafa í huga að 2,5% verðbólgumarkmið setur ekki aðeins skyldur á Seðlabankann að halda aftur að verðbólgu umfram markmið heldur einnig halda koma í veg fyrir of lága verðbólgu. Núverandi vikmörk frá markmiði eru 1,5% sem þýðir að ef verðbólga fer neðar en 1% er bankinn að bregðast skyldum sínum og þyrfti í raun að rita afsökunar- og útskýringarbréf til fjármálaráðherra líkt og ef verðbólga færi uppfyrir 4%! Og nú er verðbólga 1,1%. Þessi hætta á of lágri verðbólgu hlýtur að fara að hafa áhrif á ákvarðanir peningastefnunefndar það sem eftir lifir ári.

Hæglega má búast við 25-50 punkta áframhaldandi lækkun á stýrivöxtum á þessu ári ef verðbólga heldur áfram að hjaðna með sama hætti á seinni hluta ársins líkt og gerst hefur á þeim fyrri. Það veltur vitaskuld að miklu leyti á gengisþróun krónunnar og síðan þróun fasteignaverðs.