Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
Marylbone
VIRÐING HF OPNAR SKRIFSTOFU Í LUNDÚNUM

Virðing hf. hefur ákveðið að opna skrifstofu í Lundúnum. Skrifstofan verður rekin í bresku dótturfélagi og hefur Virðing sótt um tilskilin leyfi til breska fjármálaeftirlitsins vegna þess. Gert er ráð fyrir að skrifstofan taki formlega til starfa á síðasta ársfjórðungi þessa árs og hafi starfsheimildir til fyrirtækja- og fjárfestingaráðgjafar, auk móttöku og miðlunar viðskiptafyrirmæla.

„Starfsemi Virðingar hefur vaxið mjög undanfarin misseri og opnun skrifstofu í Lundúnum er liður í að styrkja stöðu okkar í að þjónusta viðskiptavini okkar enn betur sem og greiða frekar fyrir fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Hérlendis hefur orðið jákvæð efnahagsleg þróun, fjárhagsleg styrking ríkisins og bætt áhættuflokkun þess á erlendum mörkuðum og í framhaldi af þeirri þróun og áframhaldandi losun fjármagnshafta teljum við að tímasetningin sé hárrétt til að taka þetta skref og nýta það viðamikla tengslanet sem félagið og starfsmenn þess búa yfir,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.

Skrifstofa Virðingar í Lundúnum verður í Marylebone og hefur Gunnar Sigurðsson, sem hefur undanfarin misseri starfað sem sérfræðingur á framtakssjóðasviði Virðingar, verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í Bretlandi. Gunnar hefur undanfarið setið í stjórnum Securitas, Íslenska gámafélagsins og varastjórn Ölgerðarinnar.  Hann hefur starfað á fjármálamarkaði í yfir 20 ár og stærstan hluta þess tíma hefur hann verið búsettur í Bretlandi og í Bandaríkjunum.  Á árunum 2004-2015 starfaði Gunnar í Bretlandi, fyrst hjá Baugi Group sem framkvæmdastjóri smásölufjárfestinga og síðar sem forstjóri. Síðar vann hann m.a. sem ráðgjafi skilanefndar Landsbankans varðandi eignir bankans í Bretlandi, m.a. Iceland Foods, House of Fraser og Hamleys.

Virðing er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða. Hjá Virðingu starfa 34 sérfræðingar og hefur félagið starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti FME. Virðing er með um 105 milljarða króna í eignastýringu og starfsemi í Borgartúni 29 í Reykjavík.