Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
hannes vb 1
Viðtal við forstjóra Virðingar í Viðskiptablaðinu

Hannes Frímann Hrólfsson varð forstjóri Virðingar í janúar 2014 eftir að fyrirtækið sameinaðist Auði Capital. Hannes starfaði í 11 ár hjá Kaupþing banka og síðar Arion banka áður en hann stofnaði Tinda verðbréf árið 2009. Tindar sameinuðust síðan Auði Capital árið 2012 og Hannes var forstjóri sameinaðs félags frá apríl 2013 og hélt því starfi áfram eftir samrunann við Virðingu. Ljóst er að með samrunum og vexti undanfarinna ára er Virðing orðið eitt af stærri fjármálafyrirtækjum landsins. Nú er möguleiki á að enn öflugra fjármálafyrirtæki sé í fæðingu, en Virðing og fjárfestingabankinn Kvika vinna nú að sameiningu og er frekari tíðinda að vænta þaðan í febrúar. Virðing mun jafnframt opna skrifstofu á besta stað í Lundúnum í næsta mánuði.

Hvernig myndirðu lýsa Virðingu? „Virðing er orðið stærsta verðbréfafyrirtækið á Íslandi. Við skilgreinum okkur sem alhliða óháð verðbréfafyrirtæki og sinnum allri þeirri starfsemi sem okkur er heimilt sem verð- bréfafyrirtæki ef frá er talin eigin stöðutaka.. Við erum í grunninn eignastýringarfyrirtæki með ríflega 100 milljarða króna í stýringu og höfum í okkar rekstri hátt í 20 mismunandi sjóði. Við erum einnig mjög umsvifamikil í fyrirtækjaráðgjöf auk þess að vera með verðbréfamiðlun. Þar að auki erum við með tvö dótturfélög, annars vegar Rekstrarfélag Virðingar, og hins vegar Virðingu í Lundúnum sem mun hefja starfsemi um næstu mánaðarmót og við bindum miklar vonir við.“

Er ekki þörf á breiðri sérfræðiþekkingu í svona fjölbreyttri starfsemi? „Það er rétt og það má segja að sú sérþekking hafi byggst upp með tímanum. Með stækkandi fyrirtæki hafa umsvif félagisns aukist til muna að undanförnu. Líkt og ég nefndi áður erum við með hátt í 20 mismunandi sjóði í okkar rekstri, við erum umsvifamikil í rekstri framtakssjóða og veðskuldabréfasjóða, erum með allnokkra fasteignasjóði, hefðbundna verðbréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði í tengslum við ákveðin verkefni. Auk þess bjóðum við uppá hefbundna eignastýringu fyrir efnameiri einstaklinga og fjölskyldur. Með stækkandi fyrirtæki höfum við náð að byggja upp mjög breiða þekkingu. Við erum 36 starfsmenn í dag og athygli vekur að meðalstarfsaldur starfsmanna okkar er í kringum 17 ár sem telst mjög hátt meðal fjármálafyrirtækja. Þannig er mikil reynsla og breið þekking í mannskapnum hérna. Við erum með fjögur tekjusvið innan félagsins og síðan tvö dótturfélög og því má segja að við séum með sex tekjueiningar í okkar starfsemi.“

Fjögur opin söluferli í fyrra
Er einhver einn hluti starfseminnar búinn að vaxa hraðar en annar undanfarið?
„Þó við séum í grunninn til eignastýringarfyrirtæki hefur vöxturinn kannski verið hlutfallslega meiri í fyrirtækjaráðgjöfinni okkar. Við höfum verið mjög umsvifamikil þar að undanförnu og t.a.m. vorum við með fjögur opin söluferli á síðasta ári, sem ég held að sé meira en hjá nokkru öðru fjármálafyrirtæki. Við vorum með söluferli á Ölgerðinni, Leigufélaginu Kletti sem var í eigu Íbúðal- ánasjóðs, Lyfju fyrir hönd ríkisins og stóru fasteignafélagi sem heitir BK eignir. Auk þessara fjögurra stóru söluferla vorum við með ýmiss önnur verkefni. Fyrirtækjaráðgjöfin hefur þannig vaxtið mjög undanfarin ár og horfurnar áfram bjartar. Það var góð- ur gangur líka í miðluninni hjá okkur seinni hluta ársins auk þess sem rekstur framtakssjóðanna gekk mjög vel á síðasta ári. Að baki er líklega besta rekstrarárið í sögu félagsins, sem var stofnað árið 1999. Afkoma síðasta árs lítur mjög vel út en tekjur félagsins jukust milli ára um 45%.“

Hafa umsvif félagsins í heild aukist mikið?
„Það hefur verið mikil samþjöppun á þessum markaði. Sjálfur var ég í einum af stóru bönkunum fyrir hrun og fór síðan út úr bankakerfinu og stofnaði mitt eigið verðbréfafyrirtæki, ásamt Frosta Rey Rúnarssyni, sem hét Tindar verðbréf. Ég hef lengi talað fyrir nauðsyn þess að hagræða í fjármálageiranum, sérstaklega meðal minni fjármálafyrirtækja, sem hefur orðið raunin. Við sameinuðum Tinda verðbréf inn í Auði Capital árið 2012 og ég tek svo við sem forstjóri Auð- ar . Þegar þeirri sameiningu er lokið förum við stuttu seinna í sameiningu við Virðingu og til varð það fyrirtæki sem við erum í dag. Ég setti mér það markmið þegar ég steig út úr bankakerfinu að byggja upp stórt og öflugt verðbréfafyrirtæki. Fyrir hrun voru nokkrir stórir bankar en ekki mikið um stór, öflug verðbréfafyrirtæki sem voru óháð í þeim skilningi að þau voru ekki í eigin fjárfestingum eða hefðbundinni lánastarfsemi. Okkur hefur tekist að byggja upp gríðarlega öflugt fyrirtæki sem er mjög sterkur mótvægisaðili við stóru bankana og getur veitt þeim harða samkeppni. Það hjálpar einnig til að við höfum náð að laða til okkar öflugt fólk með mikla starfsreynslu sem er lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð, en ég sé þörf á enn frekari samþættingu á þessum markaði.“

Skrifstofan í Lundúnum mætir eftirspurn

Geturðu sagt mér frá starfsemi ykkar í Lundúnum? >
„Það má segja að við höfum byrjað að skoða starfsemi í Lundúnum snemma á síðasta ári. Þegar stefndi í að höftum yrði aflétt fundum við fyrir eftirspurn frá okkar viðskiptavinum um þjónustu erlendis. Við munum horfa á fjárfestingakosti fyrir innlenda aðila í Bretlandi en jafnframt aðstoða erlenda aðila að skoða fjárfestingatækifæri á Íslandi. Því má segja að við við munum annars vegar bjóða uppá hefðbundna fyrirtækjaráðgjöf og hins vegar skoða fjárfestingakosti þar sem við munum jafnvel setja saman hóp fjárfesta til að taka þátt í einstaka verkefnum. Lykilatriði við að opna skrifstofu erlendis er að vera með þekkingu og við byggjum auðvitað þar á mikilli reynslu starfsmanna hér sem margir hverjir hafa starfað á erlendum fjármálamörkuð- um í lengri tíma. Gunnar Sigurðsson, sem var áður forstjóri Baugs og stýrði uppbyggingu á erlendu eignasafni Baugs í Bretlandi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Virðingar í Bretlandi. Hann hefur starfað hjá okkur hér á Íslandi í um tvö ár og þar áður bjó hann í tólf ár í London, svo hann er öllum hnútum kunnur þar. Hann er einnig með mikla fjárfestingareynslu, þannig við byggjum miklar vonir við starfseininguna þar. Við förum hins vegar hægt af stað og munum byggja eininguna upp í takt við starfsemi félagsins. En það er ljóst að tækifærin hafa aukist mjög samhliða afléttingu hafta og við ætlum að bjóða viðskiptavinum okkar að skoða fleiri fjárfestingakosti utan Íslands.“

Geturðu einnig sagt mér aðeins frá starfsemi ykkar varðandi framtakssjóði (e. Private equity funds)? „Rekstur framtakssjóða í þeirri mynd sem við þekkjum þá í dag er eitthvað sem þekktist kannski ekki mikið hér á landi fyrir 2008. Við vorum fyrsti aðilinn, þ.e.a.s. Auður Capital á þeim tíma, sem stofnaði slíkan sjóð fyrir hrunárið 2008, en sá sjóður nefnist Auður I. Í dag er sá sjóður langt kominn með að losa allar sínar eignir en algengur líftími framtakssjóða er 8-10 ár. Ölgerðin var ein af stærstu eignum þess sjóðs sem við höfum núna gengið frá sölu á, að fengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þá eigum við eftir þrjár eignir í þeim sjóði, en síðan höfum við stofnað Eddu framtakssjóð, sem er meðal annars stór eigandi í Íslandshótelum, Securitas og Dominos. Þarna er um að ræða stærstu hótelkeðju landsins, stærsta fyrirtækið á sviði öryggisgæslu og stærsta aðilann í smásölu á skyndibitamarkaði. Við höfum í rauninni fjárfest í mjög mörgum íslenskum rekstrarfélögum, sem hefur hjálpað til við að styrkja minni og meðalstór félög sem ekki eru skráð í kauphöll. Í mörgum tilfellum hefur þetta verið leið þessara fyrirtækja til að sækja sér fjármagn til að vaxa og styrkjast enn frekar eins og við sjáum t.d. með Domino‘s, sem við komum með fjármagn inn í til að styðja útrás til Noregs og Svíþjóðar og ári síðar vorum við búnir að selja tæplega helming okkar fjárfestingar með mjög góðum hagnaði. Hjá Íslandshótelum komum við með fjármagn til að hjálpa til við hraðari uppbyggingu hótela, þannig við höfum verið að sjá mörg klassísk íslensk rekstrarfélög ná sér í nýtt fjármagn í formi eiginfjár, en ekki eingöngu lánsfjár eins og algengara var hér á árum áður. Þannig má segja að fjármagnsuppbygging margra íslenskra rekstrarfélaga er mun heilbrigðari nú en áður. Þar er sérstaklega rétt að minnast á lífeyrissjóðina sem hafa fjárfest í innlendum framtakssjóðum og verður ekki betur séð en þær fjárfestingar hafi almennt komið vel út á síðustu árum fyrir sjóðina auk þess sem það er ákveðin áhættudreifing fólgin í því fyrir sjóðina sem höfðu áður fyrst og fremt fjárfest í innlendum skráðum hlutabréfum.“

Ætlið þið að halda áfram með rekstur framtakssjóða?
„Við höfum skilgreint rekstur framtakssjóða sem hluta af okkar kjarnastarfsemi. Við erum með aðkomu að þremur slíkum sjóðum í dag og munum stofna fjórða sjóðinn á þessu ári, en sá sjóður hefur fengið nafnið Freyja. Við stefnum á allt að átta milljarða króna sjóð þar.“

Hver er staðan varðandi væntanlega sameiningu Virðingar og fjárfestingabankans Kviku?
„Við undirrituðum viljayfirlýsingu í nóvember og samkomulag um helstu skilmála samrunans í desember. Áreiðanleikakannanir hófust í upphafi þessa árs og gert er ráð fyrir að þeim ljúki í febrúar. Ferlið gengur ágætlega og í raun er engra frétta að vænta fyrr en niðurstöður áreið- anleikakannanna liggja fyrir.“

Er sameiningin að frumkvæði annars aðila frekar en hins?
„Upphaflega sýndum við áhuga á að gera tilboð í Kviku. Það þróaðist hins vegar þannig að félögin settust niður og ræddu kosti þess að þau yrðu einfaldlega sameinuð. Niðurstaðan var að félögin sáu hvort um sig mikinn ávinning í slíkum samruna sem varð til þess að stjórnir félagnna komust að samkomulagi um skiptahlutföll sem nú er unnið eftir.“

Hver er tilgangurinn með sameiningunni?
„Frumkvæði okkar í upphafi var einkum drifið áfram af þeirri skoð- un okkar að þörf væri á frekari vexti félagsins auk þess að ná fram frekari hagræðingu á markaðnum. Eins og ég sagði áður þá hef ég verið talsmað- ur þess í lengri tíma að það þurfi meiri hagræðingu í geiranum. Ég er búinn að taka þátt í að sameina þrjú fyrirtæki í eitt hjá Virðingu og þetta er bara enn eitt skrefið í frekari hagræðingu. Það er ljóst að sameinað félag Kviku og Virðingar yrði gríðarlega öflugt félag á fjármálamarkaði. Þá er í raun um að ræða fjárfestingabanka sem er álíka stór og fjárfestingabankahluti Íslandsbanka eða Landsbankans þegar horft er til t.a.m. tekna af fjárfestingastarfsemi. Heildareignir í stýringu hjá sameinuðu félagi yrðu um 220 milljarðar, fyrirtækjaráðgjöfin yrði gríðarlega öflug og fjölmargir sjóðir í rekstrinum. Miðlun yrði öflug og félagið með starfsemi erlendis, þannig held ég að sameinað félag verði í ákveðinni lykilstöðu þegar horft er á umhverfi fjármálamarkaðarins á næstu árum. Það er tækifæri fyrir starfsfólk, hluthafa og ekki síst viðskiptavini að geta verið hjá svo öflugum aðila.“

Mikil erlend fjárfesting eftir hrun

Árið 2016 virðist hafa verið dapurt á hlutabréfamarkaði m.v. árið á undan. Hefurðu einhverjar tilgátur um hvers vegna svo var?
„Í raun var það fyrst og fremst lækkun hlutabréfaverðs tveggja stærstu félaganna í Kauphöllinni sem hafði neikvæð áhrif á á hlutabréfavísitöluna. Það verður ekki hjá því litið að síðasta ár kom mjög vel út hjá mörgum öðrum félögum, einkum félögum sem starfa á innanlandsmarkaði og eru kannski ekki jafn háð tekjum erlendis frá. Krónan styrkist mikið á síðasta ári, sem er kannski þess valdandi að þau fyrirtæki sem eru helst með tekjur í erlendri mynt áttu ekki eins auðvelt uppdráttar. Einnig má nefna tvennt annað sem einkenndi árið 2016. Annars vegar fara lífeyrissjóðirnir að lána mjög mikið af sjóðsfélagalánum, sem í raun dregur úr fjárfestingargetu þeirra annars staðar. Hins vegar er verið að aflétta höftum þannig mikil aukning er á erlendri fjárfestingu.“

Heldurðu að erlendir fjárfestar muni í auknum mæli líta til Íslands fyrir fjárfestingar?
„Ef við skoðum árin frá 2008 til dagsins í dag og berum saman við árin fyrir hrun er ljóst að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur verið tiltölulega mikil síðastliðin ár. Mörg íslensk fyrirtæki hafa verið seld til erlendra aðila eftir hrun, t.d. Íslensk Erfðagreining, Actavis, Össur, Húsasmiðjan, Betware, Marorka auk ýmissa annarra fyrirtækja. Ég held það verði áframhald á áhuga erlendra fjárfesta, ekki síst á fyrirtækjum sem byggja mikið á hugviti. Seinni árin hefur þekking aðila á Íslandi aukist gríðarlega og það má að einhverju leyti, eins kaldhæðið og það hljómar, þakka hruninu fyrir það að Ísland fór á kortið erlendis. En fyrst og fremst er það aukinn straumur ferðamanna og erlend umfjöllun um Ísland sem veldur því að nær allir þekkja orðið landið. Þegar erlendir fjárfestar koma hingað og rýna í stöðu hagkerfisins er það yfirleitt svo að þeir eiga ekki orð yfir því hversu sterk staðan er í samanburði við erlend hagkerfi á sama tíma.“

Íslensk þjóðarsál horfir svolítið tortryggilega á erlendar fjárfestingar. Ertu hlynntur því að fá erlent fjármagn til landsins?
„Ég er algerlega á því að erlend fjárfesting sé nauðsynleg til lengri tíma litið. Þó tel ég rétt að ákveðnar fjárfestingar er tengjast auðlindum þjóðarinnar séu teknar út fyrir sviga, en hvað varðar hefðbundin rekstrarfélög er það æskilegt, alveg eins og við höfum tækifæri til að geta fjárfest utan Íslands. Þarna kemur þá fjármagn til landsins og í því felst mikill stuðningur við íslenskt atvinnulíf.“