Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
Virding-logo-rammi
Virðing og ALDA sameina krafta sína

Virðing hefur fest kaup á öllu hlutafé ALDA sjóða hf. og hluthafar ALDA koma inn í hluthafahóp Virðingar. Kaupin eru gerð m.a. með fyrirvara um samþykki hluthafafunda félaganna og eftirlitsstofnana. Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Virðingar verða um 140 milljarðar eftir kaupin.

ALDA sjóðir hf. verður áfram rekið sem sjálfstætt rekstrarfélag í fullri eigu Virðingar. Heildareignir ALDA í stýringu námu 36 milljörðum um síðustu áramót og hjá félaginu starfa fimm starfsmenn. Félagið rekur alls 10 verðbréfa- og fagfjárfestasjóði auk þess að vera söluaðili sjóða frá Aberdeen Asset Management og Hermes Investment Management. Virðing á fyrir Rekstrarfélag Virðingar hf. sem hefur sambærilegar starfsheimildir og ALDA sjóðir hf. og mun Virðing því vera eigandi tveggja rekstrarfélaga eftir viðskiptin. Alls verða 29 mismunandi sjóðir í rekstri Virðingar eftir viðskiptin.

,,Kaup Virðingar á ALDA sjóðum hf. er liður í að styrkja félagið enn frekar á sviði eignastýringar en hjá Alda Sjóðum hf. starfar eitt reynslumesta eignastýringarteymi landsins. Árangur ALDA sjóða hf. hefur verið góður og vöxtur þess mikill á síðustu árum. Kaupin eru liður í metnaðarfullum markmiðum okkar í að verða leiðandi aðili á sviði eignastýringar á Íslandi” segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar hf.

,,Við þess viðskipti verður til eitt öflugasta eignastýringarfyrirtæki landsins sem mun skila sér í aukinni þjónustu við viðskiptavini beggja fyrirtækja. ALDA mun starfa áfram í sama nafni sem dótturfélag Virðingar og áhersla áfram lögð á vönduð og fagleg vinnubrögð” segir Þórarinn Sveinsson, forstjóri ALDA sjóða hf.