Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning
BdL
Virðing hefur samstarf við Banque De Luxembourg

Virðing hf. hefur hafið samstarf við Banque de Luxembourg S.A. um eignastýringu á alþjóðlegum mörkuðum og fjárfestingu í alþjóðlegum sjóðum. Á grundvelli samstarfsins geta viðskiptavinir Virðingar hf. opnað vörslureikninga hjá Banque de Luxembourg og fengið alla eignastýringarþjónustu sem tengist erlendum fjárfestingum hjá Virðingu hf.

Banque de Luxembourg var stofnaður 1920 og er ein af elstu fjármálastofnunum í Lúxemborg með um 800 starfsmenn. Banque de Luxembourg er traustur vörsluaðili og hefur yfir að ráða langri reynslu af einkabankaþjónustu og stýringu verðbréfasjóða, en heildareignir í vörslu bankans eru 68,5 milljarðar evra. Þá er eigið fé hans 894 milljónir evra og eiginfjárhlutfall hans 19,42%. Banque de Luxembourg er í samstarfi við eignastýringarfyrirtæki líkt og Virðingu hf. í um 20 löndum.

„Með þessu samstarfi stendur viðskiptavinum Virðingar nú til boða sérsniðin eignastýring og að njóta þeirra kjara sem Banque de Luxembourg hefur byggt upp við alla helstu sjóði veraldar. Samstarf Virðingar og Banque de Luxembourg er í samræmi við aukna þjónustu Virðingar við einstaklinga og fagfjárfesta á sviði eignastýringar,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.

Virðing hf. er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða. Virðing hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti FME. Virðing er með um 105 milljarða króna í eignastýringu og starfsemi í Borgartúni 29 í Reykjavík.