Veldu síðu
Veldu síðu
Innskráning

Þegar íslensku bankarnir hrundu í fyrstu viku október 2008 var sá sem hér ritar aðalhagfræðingur Kaupþings. Eftir að bankinn hafði geispað golunni tók við langt tóm í starfseminni. Ég sat inni í dauðum banka og varð fljótt upptekinn af þeirri hugmynd að skrifa bók um hrunið.  Mér fannst ég hafa orðið vitni að sögulegum atburðum og í kringum mig lágu hrúgur af frumgögnum um útrásina sem ég vissi að myndu tvístrast og týnast.  Kannski ímyndaði ég mér að ég gæti verið ek. Sturla Þórðarson útrásarinnar. (Sturla þessi skrifaði Íslendinga sögu sem er ein helsta heimildin um Sturlungaöld ásamt því að vera virkur þátttakandi í hildarleiknum sjálfum.)

Fyrst reyndi ég að hringja í íslenska útgefendur. Raunar hringdi ég aðeins eitt símtal til stærsta útgáfufélagsins. Þar heyrðist aðeins skellihlátur hinum megin á línunni og símtölin urðu síðan ekki fleiri. Ég tók þá þann kost að reyna fyrir mér erlendis og á tiltölulega stuttum tíma tókst mér að landa útgáfusamningi við stærsta útgefenda viðskiptabóka í heiminum; McGraw-Hill. Titill bókarinnar varð „Why Iceland?“. Ég skrifaði bókina á fyrstu þremur mánuðum ársins 2009 í eins konar maníu, en eins og svo margir aðrir starfsmenn bankanna var ég mjög eirðarlaus á þessum tíma. Það var því mjög kærkomið að geta einbeitt sér að þessu verkefni.

Bókin kom út í júlí 2009 og fékk mjög góðar viðtökur ytra. Hún hefur nú selst í um 10 þúsund eintökum og verið þýdd á þýsku og japönsku. Bókin hefur jafnframt hlotið ritrýni á mörgum stærstu fjölmiðlum heims og samkvæmt Google Scholar hafa 109 fræðirit vitnað í hana. (Sjá nánar á https://notendur.hi.is/~ajonsson/baekur.htm) Það sem mér þykir þó mest um vert er að ég hef fengið hrós fyrir efnistökin frá erlendu fagfólki í bankaþjónustu og fjármálamarkaði – það var fyrir þetta fólk sem bókin var skrifuð; að skýra fyrir þeim hvað gerðist á Íslandi.

Hér heima galt bókin höfundarins. Virkum í athugasemdum – sem voru mjög margir á þessum tíma – fannst að það hefði átt að banna mér að skrifa svona bók en fyrst að skaðinn var skeður ætti fólk að sameinast um að kaupa hana ekki. Ef einhverjir útlendingar gleptust til þess að kaupa hana – þá ætti ég að afsala mér ritlaununum. Raunar fékk ég svo margar fjólur í kommentakerfunum á þessum tíma að þetta voru eiginlega bara nokkur öx á akri. Virkir athugasemdir eltu mig jafnvel til útlanda ef ég tók þátt í ráðstefnum þar ytra og reyndu að leiða óstaðkunnugt fólk í allan sannleika um hvaða mann ég hefði að geyma, en það er önnur saga.

Gestum í heitu pottunum í Laugardalslaug fannst það heldur ekki góð hugmynd að ég skrifaði svona bók: Einn ágætur maður lýsti þeirri skoðun sinni við mig í pottinum að „ég ætti að hafa vit á því að þegja og ekki tjá mig um nokkur mál“. Ég varð hins vegar feginn að hann skyldi láta sér nægja að gefa mér ritdóm í stað þess að leggja á mig hendur – sem mér sýndist hann líklegur til.

Heldur verra var það að utan við leshring virkra í athugasemdum fékkst bókin vart rædd á almennum vettvangi. Gott dæmi um þetta er Silfur Egils þann 20. september 2009 þar sem „hrunbækur“ voru til umfjöllunar en þær voru þá þegar orðnar fjölmargar og ærið misjafnar að gæðum. (Sjá nánar á     http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/video/9013/ .) Bókin mín Why Iceland? þótti þó ekki verðskulda sæti á meðal annarra hrunbóka – nema að einn ritrýnir þáttarins lýsti því yfir í framhjáhlaupi að hann hefði ekki lesið bókina og ætlaði sér ekki að lesa hana. Hann gaf þá ástæðu að undirritaður hefði lýst því yfir í blaðaviðtali að hann hafi verið rétti maðurinn til að skrifa svona bók vegna þess „að hann væri með skegg“. Síðan fylgdi röð af andlitsgrettum til þess að skýra málið frekar. (Hér sneri viðkomandi mjög út úr bókadómi og viðtali Reuters News við undirritaðan í tilefni af útkomu bókarinnar.)

Þessi aðferðafræði að meta bækur eingöngu eftir útliti höfunda og orðspori þeirra – og jafnvel stjórnmálaskoðunum – á sér vitaskuld langa og merkilega hefð hérlendis og hefur hitt miklu merkilegri rithöfunda fyrir en þann sem hér heldur á penna. Þessi hefð er til að mynda mjög skemmtilega útfærð í Heimsbókmenntasögu Kristmans Guðmundssonar frá árunum 1955-1956 en það er önnur saga.  Það að ég skyldi dæmdur en ekki bókin kom því ekki að öllu leyti á óvart.  Hins vegar er undirritaður enn svo forstokkaður að hann álítur að bókin hafi elst vel og haldi enn gildi sínu sem lýsing á útrásinni og hruninu frá sjónarhóli hagfræði og fjármála – og að í því efni ekki hafi enn verið bætt um.

Nú eru hins vegar rúmlega átta ár liðin frá hruni og kominn tími á framhald. Sá sem hér ritar mættur á ritvöllinn með aðra bók sem ber titillinn: The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World´s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse. Bókin er gefin út hjá Palgrave Macmillan og er í ritröðinni Studies in Banking and Financial Institutions. Umfjöllunarefni bókarinnar er endurreisnin – þ.e. þær aðgerðir sem gripið var til eftir hrunið og árangur þeirra. Meðhöfundur minn er Dr. Hersir Sigurgeirsson dósent í fjármálum við Viðskiptafræðideild HÍ. Nýja bókin er mun fræðilegra verk en Why Iceland? og meiri að vöxtum enda koma tveir höfundar að verki – einn hagfræðingur og einn fjármálafræðingur – og hafa báðir fengið nokkra útrás fyrir sérsvið sín í bókinni.  Bókin er aðeins seld í einni bókabúð á landinu – Bóksölu stúdenta. (Þar er hún reyndar helmingi ódýrari en skráð verð á netinu!)

Nú er annar höfundurinn skegglaus og því spurning hvort það muni haf jákvæð áhrif á mat bókmenntarýna á bókinni. Þá hefur virkum í athugasemdum fækkað allmikið sem hlýtur að bera vott um bætt atvinnuástand – og það liggur eiginlega við að maður sakni þeirra. Hér að neðan eru hins vegar fimm helstu lærdómar hrunsins og endurreisnarinnar sem bókin setur fram.

Lexía 1. Lönd án forðagjaldmiðils geta ekki verið alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar.

Kannski fremur augljós lærdómur. Lán til þrautarvara eru ekki möguleg til alþjóðlegra banka nema viðkomandi seðlabanki geti prentað peninga með alþjóðlegt greiðsluhæfi. Bankakerfi sem hafa ekki trúverðugan lánveitanda til þrautarvara eru í eðli sínu óstöðug. Það er augljóst að bankakerfi með samanlagðan efnahagsreikning sem telur 10 landsframleiðslur – líkt og íslenska kerfið var árið 2008 – eru of stór. En hve stór geta bankakerfi verið án þess að skapa hættu fyrir heimaland sitt? Geta seðlabankar á litlum myntsvæðum í raun og veru þjónað sem lánveitendur til þrautavara – jafnvel þótt bankakerfið sé alfarið fjármagnað í innlendri mynt? Prentun gjaldmiðils án alþjóðlegs greiðsluhæfis skapar alltaf hættu á gjaldeyriskreppu þar sem nýprentaðir seðlar leita út um gjaldeyrismarkaðinn. Það er því ekki að undra að í litlum opnum hagkerfum eru banka- og gjaldeyriskreppur kallaðar tvíburakreppur.

Lexía 2. Evrópska bankalíkanið er dautt.

Evrópska bankalíkanið snerist um það að bankar geti gefið út skuldabréf sem hafi jafnan forgang (pari passu) að eignum bankans og innstæður við þrot sem er í raun ígildi óbeinnar ríkisábyrgðar þar sem yfirvöld munu alltaf koma í veg fyrir að bankar falli og innstæðutryggingin falli á ríkissjóð. Óbein ríkisábyrgð gefur færi á mjög ódýrri fjármögnun sem gjarnan var notuð til fyrirtækjalána, og skapaði  hvata til of mikils vaxtar og of mikillar áhættusækni hjá evrópskum bönkum. En meðalstærð evrópskra bankakerfa sem hlutfall af landsframleiðslu heimalands er um 3,5.  Þessir stóru efnahagsreikningar urðu síðan að þjóðarvá eftir fall Lehman bræðra þegar 20 evrópskir bankar urðu greiðsluþrota.

Á Íslandi voru tengslin á milli ríkisfjárhirslunnar og bankanna rofin með neyðarlögunum er gáfu innstæðum forgang – en það var gert eftir-á (ex-post) með því að brjóta lánaskilmála. Ísland er – enn sem komið er – eina evrópska dæmið um að skuldabréfaeigendur hafi þurft að taka á sig tap – bankaskuldabréf hafa verið öruggari en ríkisskuldabréf.

Í Evrópu er nú reynt að rjúfa tengslin á milli ríkis og banka með fyrirbyggjandi (ex ante) aðgerðum með útgáfu víkjandi skuldabréfa (bail-in bonds, CoCos). Víkjandi skuldabréf eru ekki samkeppnishæf fjármögnun fyrir evrópskt atvinnulíf – evrópskir bankar eru í auknum mæli háðir fjármögnun frá evrópska seðlabankanum.  Flestir evrópskir stórbankar eru nú að reyna að minnka, s.s. með því að selja frá sér einingar og fækka alþjóðlegum starfsstöðvum.

Á Íslandi var undið ofan evrópska bankalíkaninu á einni viku í október 2008 en það mun hins vegar taka ár og áratugi að gera slíkt hið sama í Evrópu.

Lexía 3. Bólur og krísur eru alþjóðlegar – lausnir eru ávallt heimasmíðaðar.

Erlend ráðgjöf sem Íslendingar fengu bæði fyrir og eftir hrun kom mjög að takmörkuðum notum. Það var nauðsynlegt að koma með íslenskar lausnir við íslenskum aðstæðum – eða a.m.k. aðlaga erlendar hugmyndir að innlendum aðstæðum. Það er vafamál hvort aðrar þjóðir geti tekið íslenskar lausnir upp óbreyttar – til þess eru aðstæður hér of sérstakar – en möguleikamengið hefur verið víkkað hvað varðar viðbrögð við fjármálakreppum.

Íslenska endurreisnin mun til framtíðar litið verða mun áhugaverðari en hrunið fyrir erlenda aðila og nú þegar hafa ýmis stef úr frá neyðaraðgerðum Íslendinga verið tekin upp í fjármálareglugerðir beggja vegna Atlantshafsins. Það er einnig ljóst að verkfærakista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur orðið fyrir miklum áhrifum af veru sjóðsins hérlendis – bæði hvað varðar uppskiptingu banka og beitingu fjármagnshafta.

Svo má segja að allir stjórnmálaflokkar landsins hafi komið að endurreisninni á mismunandi sviðum og allir lagt eitthvað gott til – þó auðvitað megi gagnrýna margt sem gert var. Það er því von bókarhöfunda að endureisnin geti orðið að pólitískri sameign – þar sem allir flokkar geti þakkað sér árangurinn.

Lexía 4 – Fullveldi í peningamálum skiptir máli

Fullveldi í peningamálum gaf færi til þess að loka útgönguleiðum úr fjármálakerfinu sem skapaði svigrúm fyrir íslensk stjórnvöld til aðgerða og vald til þess að tryggja almannahagsmuni.

Höftin lokuðu inni fjármagn sem tryggði fjármögnun ríkissjóðs á hagstæðum kjörum þrátt fyrir lækkun lánshæfis og mikinn fjárlagahalla. Þau tryggðu einnig fjármögnun nýju bankanna þrátt fyrir léleg eignagæði og vanskil í upphafi starfstímans.

Höftin bjuggu til tvöfaldan gjaldeyrismarkað: Einn fyrir almenning og fyrirtæki (álandsgengi) er tryggði efnahagslegan stöðugleika og ótrufluð utanríkisviðskipti og annan fyrir vogunarsjóði og erlenda fjármagnseigendur (aflandsgengi) til þess að komast með peninga sína burt af landinu.

Höftin sköpuðu einnig samningsstöðu fyrir stjórnvöld til þess að leysa þann færsluvanda er fylgdu útgreiðslum úr slitabúum föllnu bankanna. Þegar upp var staðið hafi ríkissjóður náð að endurheimta allan beinan útlagðan kostnað vegna bankahrunsins og gott betur.

Lexía 5.  Íslenska endurreisnin er ekki skólabókardæmi um gildi þess að hafa peningalegt sjálfstæði

Ef gengislækkun er efnahagslegt meðal, þá geta landsmenn ekki stjórnað skammtastærðinni. Ísland hefði þurft 25% gengislækkun árið 2008 – krónan lækkaði hins vegar um 75% í frjálsum viðskiptum. Með beitingu hafta var hins vegar hægt að fara miðja leið með 50% gengislækkun.

Frá fullveldi árið 1918 hafa landsmenn vegið salt á milli þess að njóta ábata alþjóðavæðingar í opnu hagkerfi en með tilheyrandi óstöðugleika og þess að tryggja stöðugleika með fjármagnshöftum.

Árin 2001 til 2008 eru eina tímabilið á 100 ára fullveldi þar sem krónan hefur flotið frjáls. Beiting hafta á árunum 2008 til vorra daga fól í sér brot á mannréttindum íslenskra þegna og mun fela í sér langtímakostnað. Það mun taka langan tíma að byggja upp tiltrú á krónunni á nýjan leik. Vandséð að Ísland geti notið fullkomins ábata frjálsra utanríkisviðskipta sem sem sérstakt myntsvæði þegar litið er fram.